05.10.2014 14:02

Göngur og réttir

Fyrstu göngur og réttir í Núpasveit fóru fram um miðjan september síðastliðinn. Að þessu sinni þurftu smalarnir ekki svo mikið að huga að því hvað þeir ætluðu að hlaða á sig mörgum hlífðarflíkum heldur frekar að því hvaða númer af sólvörn þeir ættu að bera á sig í upphafi dags. Reyndar var talsvert vindasamt svo það varð aldrei mjög heitt. Á fimmtudegi var smalað niður í Daðastaði og á föstudegi og laugardegi var smalað niður í Katastaðarétt. Síðan var réttað á sunnudegi. Sumarið hefur farið vel með féð, því það var feitt og fallegt sem aldrei fyrr.

Þetta var í fyrsta skipti sem við smölum niður í Daðastaði á fyrsta degi gangna, en oftast hefur það verið gert eftir réttir á sunnudegi og þá gjarnan gengið mikið á til að komast með sem mest af fé til byggða fyrir myrkur. Réttardagurinn hefur sjaldan verið ánægjulegri fyrir vikið og menn sammála um að reyna að halda þessu fyrirkomulagi á komandi árum. Bláa vofan frá Holuhrauni gerði vart við sig en kom engum að sök.

 
 
 

Aðrar göngur fóru fram núna um helgina. Það andaði köldu þegar smalarnir lögðu af stað í morgunsárið og föl í heiðinni, en hlýnaði og tók upp eftir því sem leið á daginn. Smalar úr Núpasveit hittust uppi við Kvíar við Rauðhóla, að gömlum sið, með það fé sem þeir höfðu fundið í heiðinni. Þangað var féð síðan sótt með bíl. Áður hafði hver bær sinnt sínu heimalandi. Daðastaðabændur fundu samt sem áður nokkuð af fé á leiðinni heim, aðalega lömb, sem annað hvort voru rekin alla leið til byggða eða tekin og sett á bíl eftir því hvernig stóð á.

MYNDIR: http://dadastadir.is/photoalbums/265857/


 

Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381581
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 08:13:44