30.09.2015 21:32

Göngur og réttir

Öðrum göngum Núpsveitunga lauk á laugardaginn síðasta og fyrstu göngur höfðu þá farið fram tveimur vikum fyrr. Við hér á norðaustur horninu fengum sumarauka í haust eftir einkar leiðinlegt sumar sem einkenndist af kulda og bleytu. Sumaraukinn var kærkominn en olli því þó að kindurnar í heiðinni höfðu lítinn áhuga á að fara heim í fyrstu göngum. Það hafðist þó að ná fénu í Katastaði í ljósaskiptunum á öðrum degi gangna eftir langan smaladag. Þessar göngur voru sérstakar fyrir það að þetta gæti orðið í síðasta sinn sem Núpsveitungar smala heiðina saman í Katastaðarétt. Unnið er að því að girða jarðirnar af og þá mun hver bær smala fyrir sig. Síðan fengum við óvæntan liðsstyrk í formi 4 túrista og 2 leiðsögumanna. Þetta ágæta ævintýrafólk ferðaðist einhverja þúsundir kílómetra og borgaði sjálfsagt annað eins til að aðstoða þingeyska bændur við hauststörfin og villast svolítið í heiðinni. Við tökum ofan fyrir þeim og vonum að þau eigi góðar minningar þrátt fyrir að  verkefnið hafi verið heldur stærra en þau áttu von á. Á sunnudaginn var síðan réttað á Katastöðum.

Smalar frá Daðastöðum: Gunnar, Lísa, Kiddi, Birkir, Kolbeinn. Hestar: Stúdent, Hera, Gýgur, Helga, Máni, Þristur, Pjakkur, Afródíta, Þari, Leiknir. Hundar: Moli, Skotta, Panda, Roxý.

Það var mikið fé í öðrum göngum en gekk vel, sérstaklega fyrri daginn þar sem við smöluðum dalina niður í Daðastaði. Þá fengum við vaskan sjálfboðaliða úr Eyjafirðinum og munaði mikið um hann. Takk kærlega fyrir hjálpina Ingvi Guðmundsson og Skundi (vona að ég sé að fara rétt með nafnið á hundinum - hann stóð sig vel). Seinni daginn er venjan að smala í rétt í Kvíunum, en eitthvað var féið óviljugt í réttina og hvort sem er fleira en svo að hægt væri að koma öllu á vanginn, svo úr varð að hópurinn var rekinn niður í byggð í áföngum og þær kindur sem heltust úr lestinni tíndar upp í vagn. Ekki var ástæða til að kvarta undan veðrinu þó undir það síðasta hafi gert svolítið slagveður á regnfatalausa smalana.

Smalar frá Daðastöðum: Gunnar, Lísa, Kiddi, Ingvi. Hestar: Stúdent, Leiknir, Máni, Þari, Gýgur, Helga, Pjakkur. Hundar: Skotta, Panda, Moli, Roxy og Skundi.

Á sunnudegi eftir aðrar göngur hunduðumst við feðginin síðan aðeins - ekki seinna vænna en byrja að undirbúa unghundana fyrir næsta haust :)

MYNDIR MÁ SJÁ HÉR: http://dadastadir.is/photoalbums/274893/

 
Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381618
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 09:56:44