29.09.2013 16:10

Stutt myndskeið af hvolpum

Set hér inn til gamans tvö stutt myndbönd af gríslingunum.

Fyrsti hluti: http://youtu.be/a5teBve-2BA Annar hluti: http://youtu.be/OVUmrBqLOaE

 

 

 

25.09.2013 20:40

Got undan Pöndu og Taff

Panda gaut sjö hvolpum þann 20. september síðastliðinn. Fjórir hundar, þar af einn þrílitur og þrjár tíkur, allar þrílitar. Móður og hvolpum heilsast vel. Sem stendur eru 2 tíkur lofaðar og 1 hundur. Þeir sem hafa áhuga á að fá úr gotinu geta haft samband við Lísu í e-mail elisabetg@ru.is eða síma 863 1679. Sjá einnig umsögn og video í eldri frétt síðan 3.9.2013.

 

 

Set til gamans inn video sem sýnir Pöndu að leik við eigandann: http://www.youtube.com/watch?v=PvGExJC1aQ4

25.09.2013 19:07

Fyrstu göngur 2013

Föstudaginn þann 13. september lögðu Núpsveitungar af stað í fyrstu göngur þetta haustið. Það leit ekki vel út með smala í heiðina á tímabili þar sem Óli og Lísa gátu ekki gefið kost á sér, en það rættist úr því fyrir greiðvikni Þrastar Sveinssonar og bróður hans. Þar sem veður var afar hagstætt föstudag og laugardag, en reglulega slæm spá fyrir sunnudag, var afráðið að hafa annað lag á smölun í ár en síðustu ár. Ákveðið var að reyna að smala niður í Daðastaði á laugardeginum jafnhliða því að smala í Katastaðarétt, en í venjulegu árferði er það gert degi seinna. Fjórir ríðandi smalar smöluðu að venju niður í Katastaði (Kiddi, Birkir, Kolbeinn og Örn), en tveir ríðandi smalar fluttu sig yfir í Daðastaði (Gunnar og Þröstur). Til þess að þetta gæti gengið upp var auk þess öllum heimilismeðlimum tjaldað til sem vettlingi gátu valdið. Guðrún sem hafði ekki farið í dagssmölun í yfir 20 ár arkaði stórþýfi heimalandsins með stafina sína tvo og Skvísu að vopni. Reynir sem fer helst ekki í göngur, enda betri í að lyfta þungu en hlaupa, var sendur af stað hálf slappur á Galloper með öldunginn Dan og Lísa fór til móts við þau mæðginin með 6 vikna kornabarn í magapoka og tík sem var komin að goti. 

Það gekk á ýmsu, Gunnar týndi hrossi og hnakki uppi á Núp og var því skyndilega orðinn fótgangandi sem setti óneitanlega strik í reikninginn, þrátt fyrir að hundarnir Prins og Roxy hafi ekki látið sitt eftir liggja. Hrossið skilað sér heim samdægurs en hnakkurinn varð eftir á Núpnum. Íslandsmeistarinn Skotta slasaði sig í heiðinni, en Kiddi var með hana í láni. Það þurfti því að gera út mann sérstaklega til að sækja hana, þar sem allir heimilismenn voru í smalamennskum. Skotta var sem betur fer fljót að ná sér og virðist ætla að verða klár í aðrar göngur um komandi helgi. Reynir festi bílinn á Arnarstaðadalnum og  var úr leik eftir það. Guðrún þurfti seinna að játa sig sigraða á Þorvaldsásnum því hún komst ekki lengur leiðar sinnar á sökum þráláts sinadráttar eftir að hafa þverað móann fram og aftur. Lísa sem hafði ekki ætlað sér mikið í smalamennskum þetta árið mátti gefa barninu brjóst úti í haustlitunum því ekki var hægt að skilja við féð án þess að eiga á hættu á að missa það allt út í nóttina sem óðum sótti að. Þrátt fyrir allt voru smalarnir sæmilega sáttir þegar dagurinn var á enda og mikið fegnir á sunnudaginn að þurfa ekki að rjúka upp á heiði eftir að dregið hafði verið í dilka í réttinni.

 

Það dugði ekkert minna en olíugallinn á réttardaginn

 

03.09.2013 14:38

Væntanlegt got

Væntanlegt er got undan Pöndu frá Daðastöðum og Karven Taff. Upplýsingar um Pöndu má finna undir "Fjárhundar - Lísa". Panda keppti núna síðustu helgina í ágúst í A-flokki á Landsmóti SFÍ, en þar etja kappi bestu hundar landsins, og var þar í 5. sæti af 12 hundum með 74 stig fyrri daginn og 72 þann seinni. Hún var þá orðin hvolpafull og gengin mánuð með. Panda var minn aðal hundur í göngunum í fyrra og að öðrum hundum sem ég hef tekið með mér í smalamennskur ólöstuðum hefði ég engan hund frekar viljað hafa með mér í heiðina. Taff var fluttur inn frá Wales árið 2011. Sama ár vann hann Landsmót smalahunda og núna í ár var hann í öðru sæti á eftir Skottu sem er mamma Pöndu (faðir Dan frá Skotlandi).

 

 

Hér er nýlegt video af Pöndu: http://www.youtube.com/watch?v=kWrjty-Z6yo&feature=youtu.be

Hér er video af Taff: http://www.youtube.com/watch?v=QQRLD0SCTME

Áhugasemir geta haft samband við Lísu í síma 863 1679, eða e-mail elisabetg@ru.is

 

03.09.2013 12:33

Landsmót SFÍ 2013

Landsmót smalahunda var haldið að Fjalli á Skeiðum síðustu helgina í ágúst. Eftir að hafa vandræðast talsvert með ákvörðunina varð úr að litla fjölskyldan á Húsavík lagði land undir fót með tíkurnar þrjár, Skottu, Pöndu og Ýtu.  Undirrituð er býsna stolt af okkur öllum því þetta var heilmikið ferðalag með 4 vikna kríli og fá tækifæri gefist til að þjálfa hunda vikurnar fram að móti.

Tólf hundar voru skráðir til leiks í A-flokknum sem margir hverjir hefðu getað unnið á góðum degi, en við Skotta hrepptum hnossið í þetta skiptið. Við Skotta skoruðum 85 stig báða dagana. Ég keppti einnig með Pöndu í A-flokki og varð hún í 5. sæti með 74 stig fyrri daginn og 72 seinni daginn. Ýta fékk einnig að spreyta sig í B-flokks brautinni, en þetta var frumraun hennar í keppni. Hún fann kindurnar ekki fyrri daginn en skilaði 58 stigum þann seinni.

 

 

Brautin var meira krefjandi en hún virtist í fyrstu því völlurinn var flatur en um leið talsvert leitóttur sem varð til þess að hundarnir sáu ekki alltaf kindurnar. Auk þess var þungbúið á köflum. Öll umgjörð var engu að síður til fyrirmyndar og kindurnar heilt yfir góðar ef hundarnir báru sig rétt að. Það var ljómandi góð mæting en alls voru 25 hundar skráðir til leiks. Bæði fjöldi og gæði hunda eykst ár frá ári og í ár voru líka tveir glænýjir smalar með í keppninni sem báðir komust á verðlaunapall. Það er því full ástæða til að vera bjarstýnn á framtíðina.

Hér að neðan má sjá úrslitin. Samanlögð stig giltu til úrslita. Sjá nánar á http://smalahundur.123.is/blog/

Í A-flokki voru í efstu sætum (stig af 100):

1) Elísabet Gunnarsdóttir og Skotta frá Daðastöðum, með 85+85stig = 170
2) Gunnar Guðmundsson og Karven Taff frá Wales, með 86+75 stig = 161
3) Aðalsteinn Aðalsteinsson og Kría frá Daðastöðum, með 79+77 stig = 156

Í B- flokki voru í efstu sætum (stig af 100):
1) Svanur Guðmundsson og Korka frá Miðhrauni, með 82+94 stig = 176
2) Arnfríður S. Jóhannesdóttir og Lína frá Úthlíð, með 44+84 stig = 128
3) Bjarki Benediktsson og Trúska frá Breiðavaði, með 57+66 stig = 123

Í unghundaflokk voru í efstu sætum (stig af 90):
1) Svanur Guðmundsson og Smali frá Miðhrauni, með 74+74 stig = 148
2) Agnar Ólafsson og Kátur frá Eyrarlandi, með 66 + 73 = 139
3) Jón Geir Ólafsson og Röskva frá Hæl, með 65 +29 = 94

Auk verðlauna fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki, voru eftirfarandi farandbikarar afhentir:

Stigahæsti keppandi í B-flokk: Korka frá Miðhrauni (Svanur Guðmundsson)
Tígulsbikar fyrir flest stig í A-flokk: Skotta frá Daðastöðum (Elísabet Gunnarsdóttir)
Besti hundur í A-flokk: Karven Taff frá Wales (Gunnar Guðmundsson)
Besta tík í A-flokk: Skotta frá Daðastöðum (Elísabet Gunnarsdóttir)

MYNDIR frá mótinu má finna hér: http://dadastadir.is/photoalbums/252129/

10.07.2013 13:14

Velkomin á nýja heimasíðu Daðastaða

Þar sem gamla heimasíðan okkar á dadastadir.blogcentral.is hefur undanfarið stundum legið niðri dögum saman hefur verið stofnuð ný heimasíða dadastadir.is. Vefstjóri hefur flutt allt efni af gömlu síðunni yfir á nýju síðuna. Fréttir af gömlu síðunni má finna í .pdf skjali undir "eldri fréttir" í stikunni hér að ofan. Öll myndaalbúm hafa verið flutt yfir sem og upplýsingar um fjárhunda o.fl.

Hér er stefnan að segja í máli og myndum frá búskapnum á Daðastöðum með sérstakri áherslu á fjárhunda. Feðginin Gunnar og Lísa deila þessari síðu þegar kemur að upplýsingum og fréttum er varða fjárhunda.

Við viljum hvetja þá sem rata hér inn til að skrifa í gestabókina. Það er alveg nóg að skrifa bara nafn og e.t.v. heimilisfang í efsta reitinn. Það er gaman fyrir okkur sem stöndum að síðunni að vita hverjir ganga hér um.

Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381618
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 09:56:44