30.09.2015 21:32

Göngur og réttir

Öðrum göngum Núpsveitunga lauk á laugardaginn síðasta og fyrstu göngur höfðu þá farið fram tveimur vikum fyrr. Við hér á norðaustur horninu fengum sumarauka í haust eftir einkar leiðinlegt sumar sem einkenndist af kulda og bleytu. Sumaraukinn var kærkominn en olli því þó að kindurnar í heiðinni höfðu lítinn áhuga á að fara heim í fyrstu göngum. Það hafðist þó að ná fénu í Katastaði í ljósaskiptunum á öðrum degi gangna eftir langan smaladag. Þessar göngur voru sérstakar fyrir það að þetta gæti orðið í síðasta sinn sem Núpsveitungar smala heiðina saman í Katastaðarétt. Unnið er að því að girða jarðirnar af og þá mun hver bær smala fyrir sig. Síðan fengum við óvæntan liðsstyrk í formi 4 túrista og 2 leiðsögumanna. Þetta ágæta ævintýrafólk ferðaðist einhverja þúsundir kílómetra og borgaði sjálfsagt annað eins til að aðstoða þingeyska bændur við hauststörfin og villast svolítið í heiðinni. Við tökum ofan fyrir þeim og vonum að þau eigi góðar minningar þrátt fyrir að  verkefnið hafi verið heldur stærra en þau áttu von á. Á sunnudaginn var síðan réttað á Katastöðum.

Smalar frá Daðastöðum: Gunnar, Lísa, Kiddi, Birkir, Kolbeinn. Hestar: Stúdent, Hera, Gýgur, Helga, Máni, Þristur, Pjakkur, Afródíta, Þari, Leiknir. Hundar: Moli, Skotta, Panda, Roxý.

Það var mikið fé í öðrum göngum en gekk vel, sérstaklega fyrri daginn þar sem við smöluðum dalina niður í Daðastaði. Þá fengum við vaskan sjálfboðaliða úr Eyjafirðinum og munaði mikið um hann. Takk kærlega fyrir hjálpina Ingvi Guðmundsson og Skundi (vona að ég sé að fara rétt með nafnið á hundinum - hann stóð sig vel). Seinni daginn er venjan að smala í rétt í Kvíunum, en eitthvað var féið óviljugt í réttina og hvort sem er fleira en svo að hægt væri að koma öllu á vanginn, svo úr varð að hópurinn var rekinn niður í byggð í áföngum og þær kindur sem heltust úr lestinni tíndar upp í vagn. Ekki var ástæða til að kvarta undan veðrinu þó undir það síðasta hafi gert svolítið slagveður á regnfatalausa smalana.

Smalar frá Daðastöðum: Gunnar, Lísa, Kiddi, Ingvi. Hestar: Stúdent, Leiknir, Máni, Þari, Gýgur, Helga, Pjakkur. Hundar: Skotta, Panda, Moli, Roxy og Skundi.

Á sunnudegi eftir aðrar göngur hunduðumst við feðginin síðan aðeins - ekki seinna vænna en byrja að undirbúa unghundana fyrir næsta haust :)

MYNDIR MÁ SJÁ HÉR: http://dadastadir.is/photoalbums/274893/

 

07.08.2015 09:38

Gönguferð - landbætur samhliða sauðfjárrækt

Fyrirhuguð er gönguferð í landi Daðastaða þann 8. ágúst næstkomandi kl. 14:00.  Þema göngunnar er landbætur samhliða sauðfjárrækt. Gunnar og fjölskylda hafa lagt mikinn metnað í að græða upp og bæta jörðina síðan þau tóku við henni með góðum árangri og fengu til að mynda landgræðsluverðlaunin 2011 (http://www.skarpur.is/frett.asp?fID=4006). Þau hafa meðal annars notað lúpínu sem hefur reynst einkar vel og breytt áður ónýtu landi í grösugt beitarland.  Gengið verður undir leiðsögn Gunnars bónda um Daðastaðaskóg sem er í mikilli sókn þrátt fyrri talsverða beit,  lúpínubreiður sem eru smám saman að víkja fyrir öðrum gróðri, farið upp að Dimmagili og landnámsbýlið Klaufargerði heimsótt. Gönguleiðin er einkar falleg og fjölbreytt eins og myndirnar hér að neðan sýna best. Allir velkomnir - líka þeir sem hafa engan áhuga á landgræðslu og langar bara í léttan og skemmtilegan göngutúr í fallegu umhverfi.

 

MYNDIR FRÁ LANDBÓTAGÖNGUNNI 2012: http://dadastadir.is/photoalbums/249712/

MYNDIR FRÁ GÖNGULEIÐINNI: http://dadastadir.is/photoalbums/249711/

LÚPÍNUMYNDIR: http://dadastadir.is/photoalbums/249714/

 

28.02.2015 15:09

Smalahundar.is

Eftir að hafa einokað Daðastaðasíðuna um nokkurt skeið fannst vefstjóra að tilefni væri til að stofna sérstaka heimasíðu fyrir hunda vefstjóra og það sem þeim tengist. Þeir sem hafa áhuga geta skoðað hana hér: http://www.smalahundar.is/

 

Vefstjóri mun halda áfram að sinna Daðastaðasíðunni eftir föngum og ekki ólíklegt að fréttir af hundum og smölum skarist eitthvað enda gott samstarf á milli Gunnars og vefstjóra.

 

09.02.2015 17:51

Hvolpar til sölu

Á nágrannabæ Daðastaða fæddust nokkrir hvolpar seinni partinn í október 2014. Móðirin dó því miður frá þeim og úr varð að þeir fóru í fóstur til Daðastaða. Þetta voru fimm hvolpar, tveir hundar og þrjár tíkur. Hundarnir eru komnir með heimili en tíkurnar eru ólofaðar. Hvolparnir eru óskráðir, en ættirnar þekktar og ekkert því til fyrirstöðu að þetta geti orðið prýðilegir smalahundar. Móðirin er Perla frá Hallgilsstöðum SFÍ 2013-2-0063, og faðirinn Strumpur frá Snartarstöðum sem er óskráður. Þess má geta að Strumpur vann B-flokk smalahundakeppni Austurlandsdeildar SFÍ sem var haldin á Ytra- Lóni 2014 með 69/90 stig. Hvolparnir eru komnir á afhendingaraldur. Frekari upplýsingar gefur Gunnar Einarsson.

 

Hér eru nokkrar myndir og ættartalan: http://dadastadir.is/photoalbums/269582/

 

28.11.2014 23:47

Ýta og Jim - NÝJAR MYNDIR - 6 vikna

Hvolpunum fannst orðið heldur þröngt á þingi í þéttbýlinu á Húsavík og eru heldur betur kátir með nýju vistaverurnar í sveitinni.  Hér eru myndir af hvolpunum sem voru teknar þegar hvolparnir voru 6 vikna og nýkomnir í sveitinahttp://dadastadir.is/PhotoAlbums/267107/

 

Dýralæknirinn kom og heimsótti okkur í dag og í næstu viku fara hvolparnir einn af öðrum á ný heimili. Þrír hvolpar enn ólofaðir.

03.11.2014 00:10

Landsmót SFÍ 2014

Landsmót Smalahundafélags Íslands fór fram á Vorboðavelli þann 1. nóvember. Til stóð að mótið stæði yfir í tvo daga og hver hundur fengi tvö rennsli, en seinni deginum var aflýst sökum veðurs. Eitt rennsli gilti því til úrslita að þessu sinni. Undirrituð fór með þær mæðgur Skottu og Pöndu til keppni í A-flokki. Við Skotta vörðum Íslandsmeistartiltilinn örugglega með 86 stigum og Panda lenti í 5. sæti með 57 stig. Alls kepptu 10 hundar í A- flokki. Ítarlegri upplýsingar um úrslit mótsins má finna á heimsasíðu SFÍ: http://smalahundur.123.is/blog/ 

Hér eru nokkrar myndir frá verðlaunaafhendingunni: http://dadastadir.is/photoalbums/266629/

 

 

21.10.2014 21:13

Ýta og Jim - hvolpar 2ja vikna

Nýjar myndir af hvolpunum sem eru tveggja vikna í dag: http://dadastadir.is/photoalbums/266323/

 
 

11.10.2014 16:40

Ýta og Jim

Ýta frá Daðastöðum (sjá „Fjárhundar – Lísa“) átti níu hrausta hvolpa þann 7. október síðastliðinn. Þetta voru fimm hundar (þar af tveir þrílitir) og fjórar tíkur (þar af ein brún og ein þrílit). Hvolparnir eru undan Killiebrae Jim 295411 ISDS (2007-1-0784). Eigandi Jim er Einar Jóelsson í Brautartungu á Suðurlandi. Jim var fluttur inn fyrir nokkrum árum og ég hef séð nokkur mjög efnileg afkvæmi undan honum. Ég geri ráð fyrir að við höldum tveimur hvolpum sjálf, en restin eru falir. Hvolparnir afhendast 8 vikna, örmerktir, heilsufarsskoðaðir, ormahreinsaðir og bólusettir. Ættbók frá SFÍ. Áhugasamir hafi samband við Lísu í s. 863 1679 eða e-mail elisabetg@ru.is

 

05.10.2014 14:52

Panda á hvíta tjaldinu

Í ágúst voru Panda og Lísa við tökur í Bárðardalnum á kvikmyndinni Hrútar í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. Þar eru Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson í aðalhlutverkum og Panda fer með svolítið hlutverk sem hundur Theodórs. Hlutverkið er krefst nokkurs undirbúnings og hefur talsverður tími farið í æfingar í sumar. Það þarf hund með gott geðslag til að taka þátt í svona verkefni og Panda hefur staðið sig eins og hetja. Hundurinn þarf fyrir það fyrsta að læra það sem hann á að gera og síðan að halda athyglinni í tökum innan um allskonar áreiti. Næsta tökutímabil er í nóvember og eru þær stöllur þegar byrjaðar að æfa.

 

Hér að ofan má sjá Pöndu í hlutverki sínu og hér er facebook síða myndarinnar: https://www.facebook.com/ramsfilm

 

05.10.2014 14:02

Göngur og réttir

Fyrstu göngur og réttir í Núpasveit fóru fram um miðjan september síðastliðinn. Að þessu sinni þurftu smalarnir ekki svo mikið að huga að því hvað þeir ætluðu að hlaða á sig mörgum hlífðarflíkum heldur frekar að því hvaða númer af sólvörn þeir ættu að bera á sig í upphafi dags. Reyndar var talsvert vindasamt svo það varð aldrei mjög heitt. Á fimmtudegi var smalað niður í Daðastaði og á föstudegi og laugardegi var smalað niður í Katastaðarétt. Síðan var réttað á sunnudegi. Sumarið hefur farið vel með féð, því það var feitt og fallegt sem aldrei fyrr.

Þetta var í fyrsta skipti sem við smölum niður í Daðastaði á fyrsta degi gangna, en oftast hefur það verið gert eftir réttir á sunnudegi og þá gjarnan gengið mikið á til að komast með sem mest af fé til byggða fyrir myrkur. Réttardagurinn hefur sjaldan verið ánægjulegri fyrir vikið og menn sammála um að reyna að halda þessu fyrirkomulagi á komandi árum. Bláa vofan frá Holuhrauni gerði vart við sig en kom engum að sök.

 
 
 

Aðrar göngur fóru fram núna um helgina. Það andaði köldu þegar smalarnir lögðu af stað í morgunsárið og föl í heiðinni, en hlýnaði og tók upp eftir því sem leið á daginn. Smalar úr Núpasveit hittust uppi við Kvíar við Rauðhóla, að gömlum sið, með það fé sem þeir höfðu fundið í heiðinni. Þangað var féð síðan sótt með bíl. Áður hafði hver bær sinnt sínu heimalandi. Daðastaðabændur fundu samt sem áður nokkuð af fé á leiðinni heim, aðalega lömb, sem annað hvort voru rekin alla leið til byggða eða tekin og sett á bíl eftir því hvernig stóð á.

MYNDIR: http://dadastadir.is/photoalbums/265857/


 

06.09.2014 10:33

Skógræktargirðing

Vefstjóri sótti Daðastaði heim nú fyrir skemmstu þegar verið var að leggja lokahönd á heilmikla girðingu í landi Daðastaða. Hugmyndin er að þarna vaxi upp myndarlegur beitarskógur. Girðingin er á annað 100 hektara og á 3ja km að lengd og verður henni skipt upp í 3 hólf þannig hægt verði að beita skóginn sem þarna kemur til með að vaxa af skynsemi. Heimilismenn á Daðastöðum hafa allir lagt hönd á plóginn með einum eða öðrum hætti. Þá hefur Þröstur Sveinsson heimagangur og fjölskylduvinur lagt verkefninu lið af mikilli óeigingirni.  Girðingin er hluti af miklu stærra verkefni, en eins og áður hefur komið fram á síðunni stendur til að girða Daðastaðajörðina af http://dadastadir.is/blog/2014/04/21/stora-staurasogin-hans-gunnars/ . Jörðinni verður þá skipt 3 stór beitarhólf auk skógræktargirðingarinnar, landgræðslugirðingarinnar upp við Grjótfjöll og túnagirðinga. Stóra girðingin er í farvatningu og þegar hefur verið mælt fyrir girðingunni að miklu leyti og ýtt í slóðir.

 

Myndir: http://dadastadir.is/photoalbums/265104/
 

05.09.2014 17:03

Námskeið á Snæfellsnesi 2014

Undirrituð var með tveggja daga námskeið á Snæfellsnesi í lok júní síðastliðinn. Á Snæfellsnesi eru bæði góðir hundar og frambærilegir þjálfarar og því sérlega gaman að fá að sækja Nesið fagra heim. Námskeiðið var á vegum Snæfellsdeildarinnar og haldið hjá Gísla í Mýrdal. Veðrið lék við hvern sinn fingur og undirrituð var með nett samviskubit fram eftir sumri því þetta reyndust vera einna bestu þurrkarnir framan af sumri :).

 

Hér má sjá nokkrar myndir: http://dadastadir.is/photoalbums/265091/

18.06.2014 16:15

Ekkert got undan Skottu

Því miður ól ráðahagur Skottu og Mac ekki af sér neina hvolpa. Það komu því engir hvolpar í byrjun júní eins og til stóð. Skottu verður haldið aftur næst þegar hún lóðar, en ekki hefur verið ákveðið undir hvaða hund.

11.05.2014 19:11

"The world of sheepdogs"

Við Skotta vorum svo lánsamar að hún Angie Dirscoll bauð okkur að vera með í bók sem hún gaf út núna nýlega. Í bókinni er stuttleg umfjöllun um okkur Skottu og íslenska búskaparhætti ásamt mynd. Þarna erum við stöllur í félagskap snillinga eins og Julie Hill, Bobby Henderson, Kevin Evans, Colin Gordon, Jo Agnar Hansen og fleiri hundaþjálfara að ógleymdum hundunum þeirra. Við Skotta eigum auðvitað töluvert í land að standa jafnfætis þessum hetjum en það er engu að síður gaman að fá að vera með í þessari fallegu bók.

 

Bókin heitir "The world of sheepdogs" og er önnur bókin sem Angie gefur út undir þessu nafni. Bókin leggur mikið upp úr fallegum stórum myndum af Border collie hundum við vinnu. Hundarnir og smalarnir eru frá ýmsum löndum og heimsálfum. Hverjum hundi fylgir ættartala. Í bókinni eru auk þess upplýsingar um 16 efstu sætin á síðustu fjórum heimsmeistaramótum (World Champions 2002, 2005, 2008, 2011) og upplýsingar um sigurvegara landskeppninnar í Bretlandi (International Supreme Champions) frá árinu 1906. 

Angi sjálf er fædd í Englandi, uppalin í Nýja Sjálandi  og bjó um árabil í Kanada. Í dag býr hún í Skotlandi þar sem hún ræktar og temur Border Collie hunda með góðum árangri. Hún ásamt hundinum Levi var meðal 10 efstu á Evrópumóti unghunda í mars síðastliðunum. Ef einhver hefur áhuga er hægt að kaupa bókina hér: http://www.kinlochsheepdogs.com/books.htm

Þess má einnig geta að það er væntanlegt got undan Skottu í byrjun júní. 

 

Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381589
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 08:40:34