Færslur: 2013 Desember

12.12.2013 17:09

Námskeið í nóvember

Lísa var með 3 námskeið síðastliðinn nóvember. Þar af 2 fjárhundanámskeið og 1 hvolpanámskeið. Fjárhundanámskeiðin voru haldin á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði og á Svalbarði í Þistilfirði. Þeir sem halda námskeiðin leggja til fé, bjóða upp á aðstöðu og gjarnan einhverjar veitingar. Sjaldnast taka þeir neitt fyrir og njóta aðrir sem mæta á námsskeiðin góðs af. Í þessu tilfelli voru það ábúendur á Stórutjörnum og Svalbarði og rétt að þakka fyrir það. Námskeiðin voru vel sótt og færri komust að en vildu. Hvolpanámskeiðið var haldið á Húsvík í nýlegri reiðhöll hestamannafélagsins Grana. Frábær aðstaða til námskeiðahalds þar. Logn og ljós allan sólarhringinn, sem annars er af skornum skammti á þessum árstíma.

 

Því miður féll niður seinni dagurinn á Stórutjörnum vegna mikillar úrkomu. Ekki náðist að koma hópnum saman aftur áður en kom að rúningi og tilhleypingum hjá þeim sem gátu boðið upp á aðstöðu fyrir námskeiðið. Það er ekki á vísan að róa á þessum árstíma. Þistlar eru harðger stofn og létu kuldabola ekki aftra sér þáttöku í námskeiði. Það var hrollkalt fyrri daginn þannig að kennarinn átti erfitt með að segja helstu lokhljóð í lok dags svo sem B og P. Blísturshæfileikarnir döluðu líka mikið eftir sem leið á daginn og voru ekki talsverðir fyrir. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollari seinni daginn. Hundarnir voru misjafnir eins og gengur, en þónokkrir efnilegir. Undirrituð lítur á það sem algjör forréttindi að fá að sækja aðrar sveitir heim og kynnast þeim sem þar búa, bæði hundum og mönnum.

MYNDIR: http://dadastadir.is/photoalbums/255672

 

11.12.2013 16:45

Nonni og Manni

Júlli, smalinn geðþekki

 

Hver man ekki eftir Nonna og Manna. Gerð var kvikmynd upp úr bókunum um Nonna og Manna í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar árið 1988. Þar er í þónokkru hlutverki smalinn ungi Júlli leikinn af Jóhanni G. Jóhannssyni. Í myndinni fylgir honum gjarnan hundur og hópur af fé. Ekki var það svo að kindurnar væru svona hændar að leikaranum unga að þær eltu hann á röndum, heldur var Gunnar fenginn með BC hundana Lass, Roy og Ringó til að stjórna fjárhópnum í upptökunum. Þegar Gunnar mætti á upptökustað höfðu verið reyndar tökur þar sem hópur fólks var fenginn til að hafa hemil á fénu. Þá gekk á ýmsu þannig Gunnari og hundunum var tekið fagnandi og mættu miklum velvilja við sín störf. Hundurinn sem sést stundum í mynd ásamt smalanum Júlla er síðan hann Blakki frá Daðastöðum. Sá var blendingur sem Gunnar átti og nýttist sem rekstrarhundur. Blakki var ef til vill ekki besti smalahundur í heimi en hentaði vel í hlutverkið og reyndist afar hæfileikaríkur leikari ;).

 

Júlli og Blakki með hóp af fé

 

Fleiri myndir: http://dadastadir.is/photoalbums/255639/

Stikla: http://www.youtube.com/watch?v=NrUWvCQ4yQ8

 

04.12.2013 20:17

Snúlla

Vegna breyttra aðstæðna hjá einum kaupandanum er Snúlla til sölu. Snúlla er heilsufarsskoðuð, ormahreinsuð og bólusett. Hún er undan Pöndu og Taff og með ættbók frá SFÍ. Snúlla er fædd 20. september og tilbúin til afhendingar. Hún er orkumikill og lífsglaður hvolpur og í miklu uppáhaldi hjá fóstru sinni. 

 
 

Panda keppti síðustu helgina í ágúst í A-flokki á Landsmóti SFÍ, en þar etja kappi bestu hundar landsins, og var þar í 5. sæti af 12 hundum með 74 stig fyrri daginn og 72 þann seinni. Hún var þá orðin hvolpafull og gengin mánuð með. Panda keppti á deildarmóti Austurlandsdeildar SFÍ núna í desember og var í 3ja sæti með 83 stig af 100. Panda var minn aðal hundur í göngunum í fyrra og að öðrum hundum sem ég hef tekið með mér í smalamennskur ólöstuðum hefði ég engan hund frekar viljað hafa með mér í heiðina. Taff var fluttur inn frá Wales árið 2011. Sama ár vann hann Landsmót smalahunda og núna í ár var hann í öðru sæti á eftir Skottu sem er mamma Pöndu. Faðir Pöndu er Dan frá Skotlandi). Nánari upplýsingar um Pöndu má finna undir "Fjárhundar - Lísa".

Áhugasamir hafi samband við Lísu í s. 863-1679, eða elisabetg@ru.is

Hér er nýlegt video af Pöndu: http://www.youtube.com/watch?v=kWrjty-Z6yo&feature=youtu.be

Hér er video af Taff: http://www.youtube.com/watch?v=QQRLD0SCTME

 

  • 1
Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381618
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 09:56:44