Færslur: 2014 Október

21.10.2014 21:13

Ýta og Jim - hvolpar 2ja vikna

Nýjar myndir af hvolpunum sem eru tveggja vikna í dag: http://dadastadir.is/photoalbums/266323/

 
 

11.10.2014 16:40

Ýta og Jim

Ýta frá Daðastöðum (sjá „Fjárhundar – Lísa“) átti níu hrausta hvolpa þann 7. október síðastliðinn. Þetta voru fimm hundar (þar af tveir þrílitir) og fjórar tíkur (þar af ein brún og ein þrílit). Hvolparnir eru undan Killiebrae Jim 295411 ISDS (2007-1-0784). Eigandi Jim er Einar Jóelsson í Brautartungu á Suðurlandi. Jim var fluttur inn fyrir nokkrum árum og ég hef séð nokkur mjög efnileg afkvæmi undan honum. Ég geri ráð fyrir að við höldum tveimur hvolpum sjálf, en restin eru falir. Hvolparnir afhendast 8 vikna, örmerktir, heilsufarsskoðaðir, ormahreinsaðir og bólusettir. Ættbók frá SFÍ. Áhugasamir hafi samband við Lísu í s. 863 1679 eða e-mail elisabetg@ru.is

 

05.10.2014 14:52

Panda á hvíta tjaldinu

Í ágúst voru Panda og Lísa við tökur í Bárðardalnum á kvikmyndinni Hrútar í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. Þar eru Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson í aðalhlutverkum og Panda fer með svolítið hlutverk sem hundur Theodórs. Hlutverkið er krefst nokkurs undirbúnings og hefur talsverður tími farið í æfingar í sumar. Það þarf hund með gott geðslag til að taka þátt í svona verkefni og Panda hefur staðið sig eins og hetja. Hundurinn þarf fyrir það fyrsta að læra það sem hann á að gera og síðan að halda athyglinni í tökum innan um allskonar áreiti. Næsta tökutímabil er í nóvember og eru þær stöllur þegar byrjaðar að æfa.

 

Hér að ofan má sjá Pöndu í hlutverki sínu og hér er facebook síða myndarinnar: https://www.facebook.com/ramsfilm

 

05.10.2014 14:02

Göngur og réttir

Fyrstu göngur og réttir í Núpasveit fóru fram um miðjan september síðastliðinn. Að þessu sinni þurftu smalarnir ekki svo mikið að huga að því hvað þeir ætluðu að hlaða á sig mörgum hlífðarflíkum heldur frekar að því hvaða númer af sólvörn þeir ættu að bera á sig í upphafi dags. Reyndar var talsvert vindasamt svo það varð aldrei mjög heitt. Á fimmtudegi var smalað niður í Daðastaði og á föstudegi og laugardegi var smalað niður í Katastaðarétt. Síðan var réttað á sunnudegi. Sumarið hefur farið vel með féð, því það var feitt og fallegt sem aldrei fyrr.

Þetta var í fyrsta skipti sem við smölum niður í Daðastaði á fyrsta degi gangna, en oftast hefur það verið gert eftir réttir á sunnudegi og þá gjarnan gengið mikið á til að komast með sem mest af fé til byggða fyrir myrkur. Réttardagurinn hefur sjaldan verið ánægjulegri fyrir vikið og menn sammála um að reyna að halda þessu fyrirkomulagi á komandi árum. Bláa vofan frá Holuhrauni gerði vart við sig en kom engum að sök.

 
 
 

Aðrar göngur fóru fram núna um helgina. Það andaði köldu þegar smalarnir lögðu af stað í morgunsárið og föl í heiðinni, en hlýnaði og tók upp eftir því sem leið á daginn. Smalar úr Núpasveit hittust uppi við Kvíar við Rauðhóla, að gömlum sið, með það fé sem þeir höfðu fundið í heiðinni. Þangað var féð síðan sótt með bíl. Áður hafði hver bær sinnt sínu heimalandi. Daðastaðabændur fundu samt sem áður nokkuð af fé á leiðinni heim, aðalega lömb, sem annað hvort voru rekin alla leið til byggða eða tekin og sett á bíl eftir því hvernig stóð á.

MYNDIR: http://dadastadir.is/photoalbums/265857/


 

  • 1
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 381589
Samtals gestir: 78145
Tölur uppfærðar: 2.8.2021 08:40:34